Ég heiti Valentína og er 26 ára gömul. Þrátt fyrir ungan aldur hef ég mikla reynslu af líkamsrækt og heilbrigðum lífsstíl; en sagan mín byrjar ekki þar.
Sem ung stelpa var ég oft óörugg með líkamann minn, þar sem ég var stærri og meiri um mig en jafnaldrar mínir og upplifði einelti vegna útlits míns. Þetta leiddi til þess að ég þróaði með mér alvarlega átröskun sem unglingur, missti áhuga á íþróttum og þurfti ítrekað að skipta um skóla.
Með hjálp móður minnar náði ég bata frá átröskuninni. Skömmu síðar greindist ég með sjálfsofnæmissjúkdóma; Lupus, Scleroderma og Reynauds og tók að þróa með mér vímuefnafíkn. Á þessum tíma hætti ég í skóla þar sem andlega heilsan fór versnandi samhliða líkamlegu heilsu minni.
Líkamsrækt kom inn í líf mitt í kjölfarið og hjálpaði mér ekki aðeins líkamlega, heldur líka andlega. Þetta varð minn hvati til að læra einkaþjálfun og taka á mínum fíknsjúkdóm meðferðarlega árið 2019, og hefja störf sem einkaþjálfari.
Þegar ég hafði náð nokkra mánaða bata lenti ég í alvarlegu bílslysi sem ógnaði lífi mínu og þrátt fyrir erfiða endurhæfingu er ég ávallt þakklát fyrir að hafa lifað slysið af. Slysið leiddi til mikla áverka og óvinnufærni, ásamt því að ég gat ekki stunda líkamsrækt í rúmlega ár.
Með þessu þróaði ég með mér mikla þolinmæði, sem styrktist enn frekar eftir að ég hóf líkamsrækt á ný og komst að því að ég þurfti nánast að læra allt upp á nýtt. Frá þeim tímapunkti hef ég tileinkað mér lausnamiðað hugarfar, sem hefur leitt mig til margra verðmætra sigra í fitness heiminum. Þessa nálgun nýti ég mér í mínu starfi sem þjálfari.
Áhersla mín undanfarin ár hefur verið að aðstoða fólk við að styrkja sjálfsvirðingu sína með heilbrigðum venjum til að ná sínum markmiðum. Sem ég hef fengið að gera seinustu 3 ár sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi á meðferðarsviði hjá SÁÁ.
Sem lærður þjálfari og viðurkenndur fitness keppandi, hef ég víðtæka reynslu sem ég nýti mér í minni þjálfun þegar það kemur að æfingum og næringu. En mín sérhæfing er að hjálpa konum að öðlast lausnamiðað hugarfar, til að styrkja sína sjálfsvirðingu á heilbrigaðan máta sem gerir þeim kleift að vera besta útgáfan af sjálfum sér, bæði andlega og líkamlega.